Nafnávöxtun LSR 11,9% og hrein raunávöxtun 2,9% á árinu 2009

17.05.2010

Nafnávöxtun LSR var 11,9% á árinu 2009 sem svarar til 2,9% hreinnar raunávöxtunar. Sveiflur í ávöxtun sjóðsins hafa verið miklar undanfarin ár en meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 10 ár er 1,5%. Sé litið til síðustu 20 ára er meðaltal hreinnar raunávöxtunar 3,6% en í tryggingafræðilegri úttekt á stöðu og skuldbindingum lífeyrissjóða er miðað við að ávöxtun til langs tíma sé 3,5%.

Í árslok 2009 voru 55,0% af eignum sjóðsins í innlendum skuldabréfum, 0,8% í erlendum skuldabréfum, 1,1% í innlendum hlutabréfum, 33,0% í erlendum hlutabréfum, 4,2% í öðrum fjárfestingum og 5,9% í innlánum.

Eignir
Um síðustu áramót voru samanlagðar eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) 350 milljarðar króna og hækkuðu um 43,4 milljarða frá árinu á undan eða um 14,2%. Þetta er mikill viðsnúningur frá árinu 2008 þegar eignir lækkuðu um 33,5 milljarða króna á milli ára. Í árslok 2009 skiptust eignir þannig að eignir A-deildar LSR voru 134,1 milljarður króna, eignir B-deildar LSR voru 186,9 milljarðar króna, eignir Séreignar LSR voru 7,5 milljarðar króna og eignir LH voru 21,4 milljarðar króna.

Óhætt er að segja að skipst hafi á skin og skúrir þegar horft er á afkomu sjóðanna á árinu 2009. Stærstu eignaflokkar í verðbréfasafni LSR og LH eru nú erlend hlutabréf, innlend skuldabréf með ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga og innlán. Erlend hlutabréf eru rúmlega þriðjungur heildareigna sjóðanna og skiluðu þau 35,8% ávöxtun á árinu. Vextir á innlánsreikningum í bönkunum voru með hæsta móti framan af árinu og nutu sjóðirnir góðs af því. Þá var ágæt ávöxtun á ríkisskuldabréfum og skuldabréfum sveitarfélaga.

Líkt og aðrir lífeyrissjóðir, hafa LSR og LH orðið fyrir þungu höggi í kjölfar falls bankanna á haustdögum 2008. Í kjölfarið á þeirri fjármálakreppu sem skall á hér á landi lentu mörg fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum, mörg þeirra hafa farið í fjárhagslega endurskipulagningu og önnur orðið gjaldþrota. Þessir erfiðleikar komu að hluta til strax fram á árinu 2008 en á liðnu ári bárust áframhaldandi fréttir af erfiðri stöðu innlendra fyrirtækja, banka og sparisjóða. Í ljósi þess var nauðsynlegt að færa auknar fjárhæðir á afskriftarreikning í uppgjöri sjóðanna. Að teknu tilliti til afskrifta voru tekjur LSR af fjárfestingum 34,7 milljarðar króna á árinu og tekjur LH af fjárfestingum 2,3 milljarðar króna.

Ársuppgjör 2009

B-deild LSR
Heildareignir B-deildar LSR námu 186,9 milljörðum króna í lok árs 2009. Nafnávöxtun B-deildar LSR var 12,0% á árinu 2009 sem svarar til 3,0% hreinnar raunávöxtunar.

Verðbréfaeign deildarinnar í árslok 2009 skiptist þannig að 55,0% voru í innlendum skuldabréfum, 0,8% í erlendum skuldabréfum, 1,2% í innlendum hlutabréfum, 36,4% í erlendum hlutabréfum, 4,2% í öðrum fjárfestingum og 2,4% í innlánum.

Áfallin skuldbinding B-deildar í árslok 2009 var 506,8 milljarðar króna miðað við 2% ávöxtun umfram launahækkanir, sem jafngildir 3,5% ávöxtun umfram vísitölu neysluverðs, og hækkaði hún um 2,4% á árinu. Samkvæmt útreikningi tryggingafræðinga eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 214,5 milljörðum króna af skuldbindingum B-deildar með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem sjóðurinn á sjálfur að standa undir eru því 292,3 milljarðar króna. Samkvæmt efnahagsreikningi var hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris í árslok 186,9 milljarðar króna. Mismunurinn á skuldbindingum sjóðsins og hreinni eign er með bakábyrgð ríkissjóðs.

A-deild LSR
Heildareignir A-deildar LSR námu 134,1 milljörðum króna í lok árs 2009. Nafnávöxtun A-deildar LSR var 11,4% á árinu 2009 sem svarar til 2,5% hreinnar raunávöxtunar.

Í árslok 2009 voru 56,3% af verðbréfaeignum deildarinnar í innlendum skuldabréfum, 0,8% í erlendum skuldabréfum, 1,0% í innlendum hlutabréfum, 28,5% í erlendum hlutabréfum, 4,3% í öðrum fjárfestingum og 9,1% í innlánum.

Í lögum um lífeyrissjóði hefur verið miðað við að grípa skuli til viðeigandi ráðstafana ef munur á milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga er meiri en 10%. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem gildir vegna uppgjörs fyrir árið 2009 má þessi munur vera allt að 15%. Heildarstaða A-deildar er neikvæð um sem nemur 13,2% og kemur því ekki sjálfkrafa til breytinga á iðgjaldaprósentu. Stjórn sjóðsins mun hins vegar taka til skoðunar hvaða áhrif neikvæð tryggingafræðileg staða hefur á framtíðarþróun sjóðsins.

Séreign LSR
Ávöxtun Séreignar LSR var mismunandi á milli fjárfestingarleiða. Fjárfestingarstefna leiðanna þriggja gerir ráð fyrir mismunandi vægi hlutabréfa og skuldabréfa og sveiflast ávöxtun þeirra þar af leiðandi mismikið. Nafnávöxtun leiðar I var 18,6% sem svarar til 9,1% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun leiðar II var 14,3% sem svarar til 5,2% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun leiðar III, sem er bundinn innlánsreikningur, var 14,3% á síðasta ári sem svarar til 5,1% hreinnar raunávöxtunar. Við samanburð á ávöxtun Séreignar LSR við ávöxtun A- og B-deildar sjóðsins er rétt að hafa það í huga að flest öll skuldabréf eru gerð upp á markaðsvirði í séreigninni en á kaupkröfu í öðrum deildum.

Heildareignir Séreignar LSR námu 7,5 milljörðum króna í árslok 2009 og jókst hrein eign um 893,5 milljónir króna eða 13,6%.

Verðbréfaeign leiðar I í árslok 2009 skiptist þannig að 43,4% voru í innlendum skuldabréfum, 0,4% í erlendum skuldabréfum, 1,4% í innlendum hlutabréfum, 43,1% í erlendum hlutabréfum, 3,5% í öðrum fjárfestingum og 8,2% í innlánum. Verðbréfaeign leiðar II um áramót var þannig að 62,3% var í innlendum skuldabréfum, 0,8% í erlendum skuldabréfum, 1,5% í innlendum hlutabréfum, 28,9% í erlendum hlutabréfum, 2,6% í öðrum fjárfestingum og 4,0% í innlánum.

Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga


Heildareignir LH í árslok 2009 námu 21,4 milljörðum króna. Nafnávöxtun Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga var 11,5% á árinu 2009 sem svarar til 2,5% hreinnar raunávöxtunar.

Verðbréfaeign sjóðsins í árslok 2009 skiptist þannig að 50,1% voru í innlendum skuldabréfum, 0,9% í erlendum skuldabréfum, 1,2% í innlendum hlutabréfum, 38,7% í erlendum hlutabréfum, 4,9% í öðrum fjárfestingum og 4,3% í innlánum.

Áfallin skuldbinding sjóðsins í árslok 2009 var 59,5 milljarðar króna miðað við 2% ávöxtun umfram launahækkanir og hækkaði um 4,5% á árinu. Samkvæmt útreikningi tryggingafræðinga eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 29,7 milljörðum króna af skuldbindingum sjóðsins með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem sjóðurinn á sjálfur að standa undir eru því 29,8 milljarðar króna. Samkvæmt efnahagsreikningi var hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris í árslok 21,4 milljarðar króna. Mismunurinn á skuldbindingum sjóðsins og hreinni eign er með bakábyrgð ríkissjóðs og annarra launagreiðenda.